Everton er nálægt því að ganga frá kaupum á Dwight McNeil frá Burnley. Allir helstu miðlar Bretlands segja frá þessu.
Úrvalsdeildarfélagið borgar Burnley, sem féll niður í B-deildina á síðustu leiktíð, 20 milljónir punda fyrir þjónustu kantmannsins.
Þetta er annar leikmaðurinn sem Everton fær frá Burnley í sumar. James Tarkowski kom á frjálsri sölu fyrr í sumar.
Þessi tvö félög háðu einmitt mikla baráttu um að halda sæti sínu í deildinni undir lok tímabils. Að lokum hafði Everton betur.
Everton vildi fá Maxwel Cornet frá Burnley en það tókst ekki. Félagið sneri sér því að hinum 22 ára gamla McNeil.
McNeil kom upp í gegnum unglingastarf Burnley og hefur leikið með félaginu allan sinn meistaraflokksferil. Áður var hann í barnastarfi Manchester United.
Á síðustu leiktíð í ensku úrvalsdeildinni lék McNeil alla leiki Burnley en tókst ekki að skora mark.