Glæpagengi gerði tilraun til að ræna heimili Georgia Stanway og fjölskyldu hennar á meðan enska landsliðið spilaði við það sænska í undanúrslitum Evrópumótsins á þriðjudag.
Stanway lék með enska landsliðinu, sem vann 4-0 sigur á Svíþjóð og mætir Þýskalandi í úrslitaleik mótsins á sunnudag.
Glæpamennirnir héldu að húsið yrði mannlaust þar sem allir fjölskyldumeðlimir hlytu að vera á vellinum að styðja við bakið á Stanway og landsliðinu. Svo var hins vegar ekki og neyddust þeir til að snúa við, tómhentir.
„Þetta var súrsætur dagur. Á meðan við undirbjuggum okkur fyrir leikinn urðum við ansi leið að heyra að reynt hafi verið að ræna hús okkar af þjófum sem héldu að enginn yrði heima. Sem betur fer var einn fjölskyldumeðlimur heima sem gat ekki ferðast í leikinn,“ sagði faðir Stanway, Paul, um atvikið.