Juventus hefur áhuga á Anthony Martial, sóknarmanni Manchester United. Mirror segir frá.
Hinn 26 ára gamli Martial hefur engan veginn staðið undir væntingum frá því hann kom til Man Utd árið 2015. Hann var lánaður til Sevilla seinni hluta síðustu leiktíðar.
Á undirbúningstímabilinu hefur Martial hins vegar verið sjóðheitur og raðað inn mörkunum.
Juventus vill helst fá Alvaro Morata í framlínu sína. Hann hefur verið hjá Juve undanfarin tvö ár á láni frá Atletico Madrid. Nú er sá lánssamningur hins vegar runninn út.
Takist Juventus ekki að landa honum gæti félagið reynt að fá Martial frá Man Utd.
Þá hefur Timo Werner, sóknarmaður Chelsea, einnig verið nefndur sem hugsanlegt skotmark ítalska stórliðsins.