Víkingur Reykjavík er komið áfram í þriðju umferð Sambandsdeildarinnar eftir að hafa slegið út velsku meistarana í The New Saints. Þetta varð ljóst eftir markalaust jafntefli liðanna í seinni leik einvígisins í kvöld.
Víkingar unnu fyrri leikinn 2-0 á heimavelli og voru því í nokkuð góðum málum fyrir leik kvöldsins.
Lærisveinar Arnars Gunnlaugssonar komust fagmannalega frá verkefninu, héldu hreinu og munu að öllum líkindum mæta pólska úrvalsdeildarliðinu Lech Poznan í þriðju umferð.
Þeir pólsku eru í góðum málum í einvígi sínu gegn Dinamo Batumi eftir 5-0 sigur í fyrri leik liðanna. Síðari leikur einvígisins fer fram á fimmtudaginn næstkomandi.
Leikirnir í 3. umferð Sambandsdeildarinnar verða leiknir dagana 4. og 11. ágúst næstkomandi.