Afturelding gerði góða ferð á Selfoss og vann þar 4-1 sigur á heimamönnum í Lengjudeildinni í kvöld. Marciano Aziz hélt uppteknum hætti og skoraði fyrir Aftureldingu sem er á fljúgandi siglingu um þessar mundir.
Lánleysi Selfyssinga heldur hins vegar áfram og það tók gestina aðeins níu mínútur að komast yfir í kvöld. Það gerði téður Marciano Aziz sem hefur svo sannarlega sannað gildi sitt síðan að hann gekk til liðs við Aftureldingu á láni í upphafi mánaðarins.
Aziz var síðan aftur á ferðinni á 21. mínútu er hann tvöfaldaði forystu Aftureldingar og þannig stóðu leikar í hálfleik.
Javier Ontiveros bætti við þriðja marki Aftureldingar snemma í síðari hálfleik áður en Valdimar Jóhannsson minnkaði muninn fyrir Selfyssinga og staðan því orðin 3-1 fyrir Aftureldingu.
Það var síðan varamaðurinn Sævar Atli Hugason sem innsiglaði frábæran 4-1 sigur Aftureldingar með marki í uppbótartíma aðeins fáeinum mínútum eftir að hann kom inn á.
Afturelding hefur nú unnið þrjá leiki í röð í Lengjudeildinni og lyftir sér upp fyrir Selfoss í 5. sæti deildarinnar þar sem liðið situr með 22 stig.
Selfyssingar hafa hins vegar misst flugið, tapað þremur leikjum í röð og eru sem stendur í 6. sæti með 21 stig.
Vætusamt í Vesturbænum
Í Vesturbænum tóku heimamenn í KV á móti Kórdrengjum. Það var KV sem stimplaði sig fyrr inn til leiks með fyrsta marki leiksins á 32. mínútu.
Þar var að verki Magnús Snær Dagbjartsson sem náði fyrstur til knattarins í vítateig Kórdrengja eftir langa fyrirgjöf úr aukaspyrnu utan af kanti. Staðan því orðin 1-0 fyrir heimamenn.
Þannig stóðu leikar allt þar til á 76. mínútu. Eftir snökkt innkast á sínum eigin vallarhelmingi náðu Kórdrengir að fara upp í hraða skyndisókn þar sem þeir spiluðu sig alla leið inn í vítateig KV.
Eftir klafs þar barst boltinn á Axel Harðarson sem gerði virkilega vel og kom boltanum örugglega framhjá Sigurpáli Sören Ingólfssyni í marki KV.
Axel var síðan aftur á ferðinni stuttu seinna er hann kom Kórdrengjum yfir með marki á 80. mínútu.
Þetta reyndist hins vegar ekki lokamark leiksins því að í uppbótartíma átti Rúrik Gunnarsson, leikmaður KV þrumuskot að marki fyrir utan teig sem endaði í marknetinu.
Þetta reyndist lokamark leiksins sem endaði með 2-2 jafntefli. KV er eftir leikinn í 11. sæti með 8 stig. Kórdrengir eru í 9. sæti með 17 stig.