Enska landsliðið í knattspyrnu vann í kvöld afar sannfærandi 4-0 sigur á sænska landsliðinu í einum af undanúrslitaleik Evrópumótsins sem fór fram í Sheffield í Englandi í kvöld. Englendingar eru því komnir í úrslitaleik Evrópumótsins og munu þar annað hvort mæta Þjóðverjum eða Frökkum.
Bæði lið fengu ákjósanleg færi til þess að komast yfir í leiknum og það gerðist síðan á 34. mínútu að ísinn var brotinn.
Það gerði Bethany Meed með marki eftir stoðsendingu frá Luzy Bronze og það ætlaði allt um koll að keyra á Bramall Lane í Sheffield. Staðan orðin 1-0 fyrir gestgjafana og þannig stóðu leikar í hálfleik.
Það leið ekki á löngu þar til Englendingar juku við forskot sitt í síðari hálfleik. Þá skiptu Lucy Bronze og Bethany Mead um hlutverk, Mead átti stoðsendinguna og Bronze sá um að auka forskot Englands.
Markið var skoðað í VAR-sjánni vegna mögulegrar rangstöðu en markið fékk að lokum að standa.
Heimakonur voru hins vegar ekki hættar og á 68. mínútu barst boltinn til Alessiu Russo sem hafði skömmu áður komið inn sem varamaður.
Russo átti hælspyrnu að marki Svía, spyrnu sem fór á milli fóta Lindahl í markinu og staðan því orðin 3-0 fyrir England.
Áhlaupið hélt síðan áfram því að á 77. mínútu bætti Franseca Kirby við fjórða marki Englands. Boltinn barst á Kirby sem reyndi að lyfta knettinum yfir Lindahl í marki Svía sem var komin ansi framarlega. Lindahl náði að slæma hendi í boltann en ekki nægilega mikið til þess að bægja hættunni frá.
Þetta reyndust lokamark leiksins og það eru því Englendingar sem tryggja sér sæti í úrslitaleik Evrópumótsins í knattspyrnu með 4-0 sigri á Svíum.
Á morgun kemur það síðan ljós hverjir andstæðingar Englendinga í úrslitaleiknum verða. Þjóðverjar og Frakkar mætast á morgun í síðari undanúrslitaleiknum.