Cristiano Ronaldo mætti til Manchester í gær á einkaþotu sinni. Flogið var frá Madríd.
Ensk blöð segja frá því að Ronaldo muni mæta á æfingasvæði Manchester United í dag og krefjast þess að fá að fara.
Ronaldo hefur verið mikið í umræðunni undanfarið. Hann vill komast frá Man Utd. Portúgalinn sneri aftur til félagsins í fyrra, tólf árum eftir að hann yfirgaf það fyrir Real Madrid. Sjálfur átti Portúgalinn fínasta tímabil en Man Utd hafnaði hins vegar í sjötta sæti ensku úrvalsdeildarinnar.
Ronaldo fór ekki með Man Utd í æfingaferð til Asíu á dögunum. Sagt er að það sé af fjölskylduástæðum, þó það megi draga það í efa í ljósi sögusagna um framtíð leikmannsins.
Nú mun Ronaldo mæta í viðræður við Man Utd en sagt er að hann muni aðeins segja félaginu það að hann vilji fara.
Man Utd vill bjóða honum tveggja ára samning og lána hann í eitt ár, svo hann geti spilað í Meistaradeild Evrópu. Ronaldo hefur aldrei leikið í Evrópudeildinni, keppninni sem Man Utd mun leika í á næsta tímabili.
Ronaldo hefur verið óvænt orðaður við Atletico Madrid undanfarið.