Brasilíska stórstjarnan Neymar veit ekki hvaða framtíðaráætlanir félag hans, Paris Saint-Germain, er með fyrir sig.
Hinn þrítugi Neymar hefur verið orðaður frá PSG í sumar en sjálfur vill hann vera áfram.
Neymar hefur til að mynda verið orðaður við Chelsea og Newcastle í ensku úrvalsdeildinni.
„Enginn frá félaginu hefur sagt mér hverjar framtíðaráætlanir eru fyrir mig. Sjálfur vil ég vera áfram,“ segir Neymar.
Hann kom til PSG frá Barcelona í nokkuð óvæntum félagaskiptum sumarið 2017. Franska félagið borgaði um 200 milljónir punda fyrir hann. Neymar er því dýrasti leikmaður sögunnar.
Markmið PSG um að vinna Meistaraddeild Evrópu hafa ekki tekist eftir komu Neymar og hafa verið orðrómar á kreiki um að félagið sé tilbúið að losa sig við hann.