Breiðablik hefur fengið gríðarlegan liðsstyrk fyrir komandi átök en kvennalið félagsins samdi í dag við Öglu Maríu Albertsdóttur.
Agla er leikmaður Hacken í sænsku úrvalsdeildinni en hún gerir lánssamning við Blika út árið.
Agla spilaði með íslenska landsliðinu á EM kvenna í sumar og var þátttakandi í öllum leikjunum í riðlakeppninni.
Hún yfirgaf einmitt Blika til að semja við Hacken fyrr á þessu ári.
Tilkynning Breiðabliks:
Breiðablik og sænska félagið BK Häcken hafa komist að samkomulagi um að Agla María Albertsdóttir komi á láni til Blika fram að áramótum.
Sænska félagið keypti Öglu Maríu í vetur og hefur hún komið við sögu í átta leikjum í sænsku úrvalsdeildinni það sem af er tímabil, en áður hafði hún skorað 97 mörk í 126 leikjum með Breiðabliki. Hún tekur nú slaginn með Blikum næstu mánuði enda mikið fram undan í deild, bikar og Meistaradeild.
Agla María er nú nýkomin frá Englandi þar sem hún tók þátt í öllum leikjum Íslands á EM, og var meðal annars í byrjunarliðinu gegn Frakklandi þar sem hún spilaði jafnframt sinn 50. A-landsleik.
Það segir sig sjálft hversu stórt það er fyrir Breiðablik og fótboltann hér heima að fá leikmann á borð við Öglu Maríu aftur. Hún er ekki aðeins frábær leikmaður og þrautreynd landsliðskona, heldur er hún einnig mikil fyrirmynd fyrir unga iðkendur.
Velkomin aftur í Kópavoginn, Agla María! 💚