Paulo Dybala, leikmaður Roma, er búinn að bæta met Cristiano Ronaldo eftir að hann skrifaði undir hjá ítalska félaginu á dögunum.
Dybala yfirgaf lið Juventus í sumar og samdi við Roma en hann varð samningslaus og því fáanlegur á frjálsri sölu.
Stuðningsmenn Roma misstu sig þegar Dybala skrifaði undir en hann er enn aðeins 28 ára gamall og á nóg eftir – hann er einnig landsliðsmaður Argentínu.
Ronaldo gekk í raðir Juventus árið 2018 frá Real Madrid og setti met í því að selja treyjur félagsins með nafn sitt á bak. Enginn leikmaður í sögu Serie A hafði gert betur.
Samkvæmt Corriere dello Sport varð Dybala hins vegar vinsælli en Ronaldo og seldi enn fleiri treyjur sem segir ýmislegt um hversu vinsæll hann er í Róm.
Dybala neitaði að klæðast treyju númer 10 hjá Roma vegna Francesco Totti og mun þess í stað nota númerið 21.