Ryan Sessegnon hefur bætt sig mikið líkamlega í sumar og ætlar sér að berjast um byrjunarliðssæti hjá Tottenham í vetur.
Sessegnon er orðinn 22 ára gamall en hann gekk í raðir Spurs fyrir þremur árum og var þá einn efnilegasti leikmaður Englands.
Tíminn hjá Tottenham hefur að hluta til verið ansi erfiður og hafa meiðsli aftan í læri sett strik í reikninginn.
Þesisi sóknarsinnaði bakvörður er þó fullur tilhlökkunar fyrir næsta tímabil og er viss um að hann verði í betra standi en á síðasta tímabili.
,,Ég notaði undirbúningstímabilið í að bæta vöðvana bæði í fótunum sem og í efri hlutanum. Ef þið sjáið muninn þá virkaði það augljóslega!“ sagði Sessegnon.
,,Ég gerði þetta svo ég væri sterkari á velli og gæti spilað fleiri leiki, svo ég geti hlaupið upp og niður völlinn í 90 mínútur.“
,,Það er klárlega eitt af mínum markmiðum, að spila sem flesta leiki á tímabilinu. Á síðasta tímabili var ég að meiðast því vöðvarnir aftan í læri voru ekki nógu sterkir.“