Dwight Gayle hefur yfirgefið Newcastle United á Englandi og hefur gert tveggja ára samning í Championship-deildinni.
Þetta staðfesti Newcastle í gær en Gayle er 32 ára gamall og er í raun best geymdur í næst efstu deild Englands.
Þar hefur Gayle átt frábær tímabil en hann skoraði bæði 23 mörk fyrir Newcastle 2016-2017 og sama fjölda fyrir West Bromwich Albion 2018-2019.
Gayle hefur fengið fjölmörg tækifæri á að sanna sig í efstu deild Englands en tókst mest að skora sjö mörk fyrir Crystal Palace 2013-2014.
Newcastle samþykkti að hleypa leikmanninum frítt annað í sumar og gerir hann tveggja ára samning við Stoke.
Athygli vekur að Gayle átti tvö ár eftir af samningi sínum á St. James’ Park en félagið hafði ekkert á móti því að hleypa honum burt frítt.