Barcelona hefur selt 15 prósent til viðbótar af framtíðar sjónvarpstekjum félagsins til fjárfestingarsjóðs í Bandaríkjunum.
Sixth Street keypti á dögunum tíu prósent af framtíðar sjónvarpstekjum Barcelona til næstu 25 ára. Nú hefur félagið bætt við sig 15 prósentum til viðbótar og á því 25 prósent af sjónvarpstekjum Barcelona næstu 25 árin.
Með þessu er Barcelona að reyna að bjarga fjárhagi sínum á þessu ári en félagið er skuldum vafið.
Barcelona segir að fjárfesting Sixth Street tryggi félaginu 267 milljónir evra til notkunar á þessu tímabili.
Barcelona hefur keypt Robert Lewandowski, Raphinha og Pablo Torre fyrir 91 milljón punda í sumar. Þá komu Andreas Christensen og Franck Kessié frítt.
Barcelona er svo að reyna að kaupa Jules Kounde frá Sevilla og þá vill félagið fá César Azpilicueta og Marcos Alonso frá Chelsea og einnig Bernardo Silva frá Manchester City.
Skuldir Barcelona eru hins vegar meira en milljarður evra en félagið skuldar sem dæmi Frenkie de Jong 18 milljónir punda í laun.