Miðjumaðurinn Billy Gilmour hefur tjáð sig um erfiðan vetur er hann lék með Norwich City í efstu deild Englands. Tímabilið var erfitt í heildina fyrir Norwich sem féll úr efstu deild.
Það var búist við miklu af Gilmour sem kom til Norwich á láni frá Chelsea en náði ekki að sýna sitt rétta andlit síðasta vetur.
Stuðningsmenn Norwich voru duglegir að láta Gilmour heyra það í leikjum liðsins sem varð til þess að fjölskylda leikmannsins hætti að láta sjá sig á leikjum.
Gilmour er aðeins 21 árs gamall og lék alls 24 leiki fyrir Norwich í deildinni. Hann á einnig að baki 15 landsleiki fyrir Skotland.
,,Þetta var mjög erfitt. Þetta var líka erfitt fyrir fjölskylduna. Þegar fjölskyldan er í stúkunni og þau heyra áreitið frá stuðningsmönnunum, það er aldrei ánægjulegt. Það var ekki gaman að heyra,“ sagði Gilmour.
,,Þau hættu að mæta á leikina sem var ekki góð upplifun. Þau voru ekki að mæta á leiki helgarinnar og horfðu heima í staðinn. Þetta er skoðun stuðningsmannana. Þeir borga til að koma og horfa á leikina en það sem gerðist var ekki ánægjulegt.“