Cristiano Ronaldo vill komast frá Manchester United. Hann sneri aftur til félagsins í fyrra, tólf árum eftir að hann yfirgaf það fyrir Real Madrid.
Sjálfur átti Portúgalinn fínasta tímabil en Man Utd hafnaði hins vegar í sjötta sæti ensku úrvalsdeildarinnar.
Ronaldo fór ekki með Man Utd í æfingaferð til Asíu á dögunum. Sagt er að það sé af fjölskylduástæðum, þó það megi draga það í efa í ljósi sögusagna um framtíð leikmannsins.
„Ég veit ekki hvað Cristiano hefur sagt við félagið eða við stjórann, en við verðum að virða það að hann er að taka sinn tíma,“ segir Bruno Fernandes, liðsfélagi Ronaldo hjá Man Utd og portúgalska landsliðinu.
„Cristiano var markahæstur hjá okkur á síðustu leiktíð. En það er ekki ég sem ræð, félagið þarf að ákveða sig og Cristiano þarf að taka sína ákvörðun. Ég veit ekki hvað er í gangi í hausnum á honum eða hvort hann vilji fara.“