Það kom heldur betur á óvart í dag er leikmaðurinn Kaiky Fernandes skrifaði undir samning við Almeria á Spáni.
Kaiky er talinn gríðarlega efnilegur leikmaður og var orðaður við mörg stórlið í Evrópu í sumar.
Hann spilaði stórt hlutverk hjá Santos í Brasilíu undanfarin tvö tímabil þrátt fyrir að vera aðeins 18 ára gamall.
Kaiky er talin vera ein af vonarstjörnum Brasilíu en hann spilar í miðverði og leikur einnig fyrir U20 landslið þjóðarinnar.
Manchester United, Barcelona, Arsenal og Chelsea horfðu öll til leikmannsins sem skrifaði þess í stað undir hjá nýliðunum í efstu deild Spánar.
Almeria borgar sjö milljónir evra fyrir Kaiky sem gerir sex ára samning.