Julian Nagelsmann, stjóri Bayern Munchen í Þýskalandi, skilur lítið í kaupum Barcelona í félagaskiptaglugganum sem nú er opinn.
Barcelona keypti nýlega Robert Lewandowski frá Bayern og Raphinha frá Leeds. Þar áður keypti félagið Franck Kessie frá AC Milan.
Börsungar eru í miklum fjárhagsvandræðum og skilja því margir hvorki upp né niður í þessu.
„Barcelona, eina félagið sem á engan pening. Samt kaupa þeir alla þá leikmenn sem þeir vilja,“ sagði Nagelsmann eftir kaup Barca á Lewandowski.
Þjóðverjinn skilur lítið í þessu. „Ég veit ekki hvernig þeir gera þetta. Þetta er frekar skrýtið, frekar klikkað.“