Fjölmiðlamaðurinn umdeildi, Piers Morgan, telur ólíklegt að Cristiano Ronaldo verði áfram hjá Manchester United eftir sumarið.
Ronaldo vill komast frá Manchester United. Hann sneri aftur til félagsins í fyrra, tólf árum eftir að hann yfirgaf það fyrir Real Madrid. Sjálfur átti Portúgalinn fínasta tímabil en Man Utd hafnaði hins vegar í sjötta sæti ensku úrvalsdeildarinnar.
Ronaldo fór ekki með Man Utd í æfingaferð til Asíu á dögunum. Sagt er að það sé af fjölskylduástæðum, þó það megi draga það í efa í ljósi sögusagna um framtíð leikmannsins.
„Ég held að hann sé farinn í huganum,“ segir Piers. „Ég ætla ekki að segja hvað hefur farið fram okkar á milli en ég held að Cristiano og Manchester United deili ekki sama metnaði.“
„Ef maður væri hann, væri að nálgast lok ferilins en langaði enn að vinna stóra titla, myndi maður vera áfram hjá United?“
„Það er hans að svara því en ef þú spyrð mig held ég að hann verði ekki áfram hjá Manchester United. Ég held að hann gæti tekið óvænt skref.“
Piers er mikill stuðningsmaður Arsenal. „Ég er að gera allt sem ég get til að fá hann til Arsenal,“ segir hann léttur.