Cristiano Ronaldo hefur verið mikið í umræðunni undanfarið.
Ronaldo vill komast frá Manchester United. Hann sneri aftur til félagsins í fyrra, tólf árum eftir að hann yfirgaf það fyrir Real Madrid. Sjálfur átti Portúgalinn fínasta tímabil en Man Utd hafnaði hins vegar í sjötta sæti ensku úrvalsdeildarinnar.
Nú segir Sport á Spáni frá því að Georgina Rodriguez, kærasta Ronaldo, vilji einnig burt frá Manchester. Hún hvetur leikmanninn nú til að fara.
Georgina, sem sjálf er heimsfræg, vill helst komast til Spánar, þar væri Madríd draumaáfangastaðurinn. Ronaldo lék áður með Real Madrid. Hann var óvænt orðaður við Atletico Madrid á dögunum.
Ronaldo fór ekki með Man Utd í æfingaferð til Asíu á dögunum. Sagt er að það sé af fjölskylduástæðum, þó það megi draga það í efa í ljósi sögusagna um framtíð leikmannsins.