Knattspyrnumaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson var mættur á leik Íslands og Frakklands í lokaumferð riðlakeppni Evrópumótsins í knattspyrnu í Rotherham í gær. Þetta er í annað skiptið á nokkrum dögum sem Gylfi sést opinberlega en lítið hafi heyrst eða sést til hans fyrir það frá því að hann var handtekinn í júlí á síðasta ári, grunaður um kynferðisbrot gegn ólögráða einstaklingi.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir er frænka Gylfa Þórs sem mætti og studdi frænku sína áfram líkt og í leiknum gegn Ítalíu á dögunum. Það sýna myndir sem ljósmyndari Vísis tók en þar má einnig sjá Gylfa gefa sér tíma til þess að árita takkaskó hjá ungum áhorfanda.
Greint var frá því í gær að lögreglan í Manchester veit ekki hver næstu skref í máli Gylfa Þórs verða. Það sagiði hún í svari við fyrirspurn 433.is.
Gylfi hefur verið laus gegn tryggingu og í ferðabanni frá Englandi eftir að hann var handtekinn en tryggingin rann út á laugardag.
„Eins og áður hefur komið fram er trygging hans á enda og eins og staðan er núna vitum við ekki hver næstu skref verða,“ segir í svari lögreglunnar við fyrirspurn 433.is
Gylfi Þór er nú án félags en samningur hans við enska úrvalsdeildarfélagið Everton rann út um síðustu mánaðarmót. Gylfi er 32 ára gamall en hann hefur verið í atvinnumennsku í fótbolta í 17 ár.
Hann lék ekkert með Everton á síðustu leiktíð eftir að lögreglan í Manchester hóf rannsókn vegna gruns um kynferðisbrot gegn ólögráða einstaklingi