Þýsku hjónin Ulli og Nikki eru miklir stuðningsmenn íslenska kvennalandsliðsins. Þau eru stödd á Evrópumótinu þar sem þau styðja sína þjóð, en einnig ætla þau að mæta á leik Íslands og Frakklands í Rotherham í kvöld.
Ulli og Nikki fóru líka á EM í Hollandi fyrir fimm árum síðan og hrifust af Íslandi. „Okkur líkar mjög við íslenska liðið, sérstaklega stuðningsmennina. Við fórum líka á mótið 2017, það var mjög skemmtilegt og algjört partí. Þess vegna ákváðum við að koma aftur núna,“ segir Nikki.
Ulli heldur að leikur kvöldsins verði mjög erfiður fyrir Ísland en vonar það besta. „Þetta verður mjög erfiður leikur en við munum styðja Ísland. Það væri frábært ef þær fá stig eða þrjú en mér finnst það ekki líklegt.“
Nikki vonar að stemningin verði eins og fyrir fimm árum. „Vonandi verður þetta jafnstórt partí og í Hollandi.“
Hér fyrir neðan má sjá spjallið við Ulli og Nikki í heild.
Leikur Íslands og Frakklands hefst klukkan 19 í kvöld að íslenskum tíma. Með sigri tryggir Ísland sér farseðil í 8-liða úrslit EM.