Ísland gerði 1-1 jafntefli við Frakka í lokaleik sínum á Evrópumótinu í kvöld. Um var að ræða síðasta leik í riðlakeppni og er Ísland úr leik. Agla María Albertsdóttir var sátt með frammistöðuna.
„Það var erfitt að koma okkur í þá stöðu að þurfa að sækja úrslit á móti Frakklandi, en við verðum bara að hanga á því jákvæða og taka það með í næsta verkefni,“ segir Agla.
Það er hughreystandi upp á framtíðina að geta staðið í bestu þjóðunum. „Upp á framtíðina, að vita að við getum verið að stela stigum af þessum góðu þjóðum, það bara segir sitt og það er gott fyrir okkur að vita af því.“
Leikurinn í kvöld var kvöld var nokkuð góður af hálfu íslenska liðsins. Það reyndist hins vegar dýrt að nýta ekki dauðafæri í öðrum leikjum. „Það er bara gott fyrir okkur að ná í úrslit á móti Frakklandi, þetta tapast raunverulega í öðrum leikjum.“
„Mér finnst þetta mjög jákvæð skref sem við erum að taka. Við þurfum að halda betur í boltann, það tókst ekki alveg nógu vel í hinum leikjunum,“ segir Agla María Albertsdóttir.