Ísland gerði 1-1 jafntefli við Frakka í lokaleik sínum á Evrópumótinu í kvöld. Um var að ræða síðasta leik í riðlakeppni og er Ísland úr leik. Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir var sátt með frammistöðu íslenska liðsins en, eins og eðlilegt er, svekkt með að detta út.
„Þetta er bara drulluerfitt. Við gáfum allt í þetta mót og mér fannst liðið geggjað. Óheppni finnst mér, töpum ekki en förum ekki áfram, gerum jafntefli við Frakka, en svona er fótboltinn og við verðum bara að tapa þessu. Nú er bara enn meiri mótivering að komast til Ástralíu. Það er það góða við þennan hóp. Hugarfarið er rétt í þessum hópi,“ segir Gunnhildur og vísar þar í HM, sem fram fer í Ástralíu og Nýja-Sjálandi á næsta ári.
„Við gáfum allt í alla þrjá leikina. Þetta féll ekki með okkur í þessu móti en þetta er bara skref upp á við. Þetta er erfitt núna og maður mun seint gleyma þessu.“
Gunnhildur byrjaði á bekknum í dag eftir að hafa byrjað fyrstu tvo leikina á mótinu. „Maður vill aldrei byrja á bekknum, maður vill alltaf spila. En Steini (Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari) tók þessa ákvörðun og ég virði hana. Stelpurnar stóðu sig vel svo það er ekkert út á hann að setja eða leikmenn.“