Bacary Sagna, fyrrum leikmaður Arsenal, hefur svarað fyrrum samherja sínum, Cesc Fabregas, fullum hálsi eftir að hann tjáði sig um tíma sinn hjá félaginu.
Fabregas ræddi um tíma sinn hjá Arsenal en hann taldi aðeins tvo leikmenn vera í sama gæðaflokki og hann hjá félaginu, Samir Nasri og Robin van Persie.
Það er eitthvað sem kemur Sagna verulega á óvart en hann var sjálfur lengi hluti af liði Arsenal og spilaði stórt hlutverk.
,,Ég var mjög hissa þegar ég las þetta. Að þetta hafi komið frá honum var óvænt því hann átti að vera einn af leiðtogum liðsins og vonarstjörnum, þú talar ekki svona um þitt félag,“ sagði Sagna.
,,Þetta kom verulega á óvart því hann er mjög vinalegur náungi og er það ennþá, þetta breytir engu. Ég var hins vegar mjög hissa.“
,,Arsenal gerði hann að þeim leikmanni sem hann var svo það er frekar gróft að segja að sumir leikmenn hafi ekki verið í sama gæðaflokki. Hann var ekki endilega til fyrirmyndar öll tímabilin sem hann spilaði með liðinu.“
,,Á þessum tíma töluðu fjölmiðlar um að hann væri ekki að hlaupa nógu mikið eða verjast nógu vel. Aðrir gætu hafa gagnrýnt það. Þetta er hans skoðun og hann á rétt á henni en við eigum öll góð augnablik sem og slæm.“