Gareth Bale er líklega stærsta nafnið í bandarísku MLS-deildinni en hann er ekki á meðal tíu launahæstu leikmanna deildarinnar.
Það er staðreynd sem vekur heldur betur athygli en Bale kom til Bandaríkjanna í sumar frá Real Madrid.
Samningur Bale við Real var runninn út en hann þénaði 350 þúsund pund á viku á Spáni sem er gríðarlega há upphæð.
Bale tók hins vegar á sig gríðarlega launalækkun með skrefinu til Bandaríkjanna og þénar nú 1,3 milljónir punda á ári.
Lucas Zelarayan er síðasta nafnið á topp tíu listanum yfir launahæstu leikmenn MLS-deildarinnar en hann spilar með Columbus Crew og fær 3,3 milljónir í árslaun.
Það eru mun hærri laun en Bale fær hjá LAFC og er welski landsliðsmaðurinn þá langt frá toppnum.
Lorenzo Insigne er launahæsti leikmaður deildarinnar og fær 10,5 milljónir á ári hjá Toronto FC.