Í dag er eitt ár liðið frá handtöku Gylfa Þór Sigurðssonar. Knattspyrnumaðurinn var tekinn höndum á heimili sínu í úthverfi Manchester föstudaginn 16. júlí 2021 og færður til yfirheyrslu vegna gruns um kynferðisbrot gegn ólögráða einstaklingi. Vinnuveitandi Gylfa, Knattspyrnufélagið Everton, setti lögbann á umfjöllun um meint afbrot landsliðsmannsins í Bretlandi og hafa því breskir fjölmiðlar ekki snert á málinu síða.
Nafn Gylfa kvisaðist þó fljótlega út til Íslands og segja má að íslenskt þjóðfélag hafi farið á hliðina þegar hann var nafngreindur í íslenskum fjölmiðlum fjórum dögum síðar.
Síðan þá hefur biðin endalausa tekið við. Gylfi var úrskurðaður í farbann á meðan málið væri rannsakað en það hefur verið framlengt ítrekað og stendur því enn yfir. Talið er að draga muni til tíðinda á næstu vikum en það hefur þó verið talið áður.
Á meðan rannsókninni stendur hefur Gylfi verið í einskonar stofufangelsi á ótilgreindum stað og ekki fengið að spila fótbolta. Aðeins ár var eftir af samningi hans við Everton þegar hann var handtekinn í fyrra og á meðan stofufangelsinu hefur staðið rann samningurinn út og Gylfi því atvinnulaus í dag. Eins og komið hefur fram er talið að lið í Tyrklandi sé áhugasamt um þjónustu hans ef málið verður fellt niður.
Fjölskylda Gylfa og hans nánustu vinir hafa myndað þéttan varnarvegg í kringum landsliðsmanninn og lítið sem ekkert hefur frést af málinu, hvort sem um er að ræða nákvæmlega eðli hina meintu brota eða líðan Gylfa þó að sumar sögur séu háværari en aðrar.
Talsverða athygli vakti þegar að Gylfi lét sjá sig í fyrsta sinn opinberlega á leik Íslands og Ítalíu á EM kvenna í Manchester á dögunum. Hvort að sú mæting gefi aðdáendum Gylfa tilefni til bjartsýni um að málið gegn honum verði látið niður falla skal þó ósagt látið. Áfram skal beðið.