Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari karlaliðs Breiðabliks er á blaði hjá forráðamönnum sænska úrvalsdeildarfélagsins IFK Norrköping sem mögulegur næsti þjálfari liðsins. Frá þessu greinir sænski miðillinn Aftonbladet.
Norrköping er búið að reka Rikard Norling úr þjálfarastöðunni en auk Óskars Hrafns eru Poya Asbaghi og Daniel Backström, þjálfari Sirius á blaði hjá Norrköping.
Óskar Hrafn hefur verið að gera frábæra hluti hjá Breiðablik sem er á toppi Bestu deildarinnar með gott forskot.
Nokkrir Íslendingar eru á mála hjá félaginu og í dag var Arnór Sigurðsson kynntur sem nýr leikmaður Norrköping. Þá er Andri Lucas Guðjohnsen sagður nálægt því að ganga til liðs við félagið.