Valur tapaði 0-3 gegn Keflavík í Bestu deild karla í gær. Liðið er í fimmta sæti deildarinnar með 20 stig, ellefu stigum á eftir toppliði Breiðabliks.
Staða Heimis Guðjónssonar, þjálfara Vals, hefur mikið verið í umræðunni á tímabilinu. Kristján Óli Sigurðsson, sérfræðingur Þungavigtarinnar, segir kominn tími á breytingar. „Þetta partí er löngu búið. Það er bara ekki búið að finna arftaka.“
„Kannski eru þeir bara búnir að gefast upp, ætla bara að klára þetta tímabil og byrja aftur í haust.“
Kristján hrósaði Keflvíkingum einnig.
„Það var himinn og haf á milli þessara liða. Keflavík hefði hæglega getað skorað mun fleiri mörk. Það sem Keflavík er búið að gera síðastliðið ár er að vinna í sínum leik. Hinum megin er bara hjakkað í sama farinu og ekkert gerist, nema keypt fullt af leikmönnum. En þú getur ekki rekið 22 leikmenn.“