Það gengur vel hjá Keflavík í Bestu deild karla um þessar mundir.
Liðið vann 0-3 sigur á Val í gær og er komið upp í efri hluta deildarinnar, nánar til tekið í sjötta sæti.
Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari Keflavíkur, birti færslu á Facebook í morgun. Þar sýndi hann frá stemningunni í klefa liðsins eftir leik.
„Það var stemning í klefanum eftir leikinn í gær. Skemmtilegt að sjá öfluga liðsheild mótast og leikmenn að skrifa sína eigin sögu saman,“ skrifar Sigurður.
„Markmið Keflavíkur í sumar er topp 6. Sigurinn á Val í gær var stærsti útisigur Keflavíkur á Val í Bestu deildinni síðan 1973. Hvort sem að markmiðið næst eða ekki þá munum við leggja okkur alla fram við að ná því.“
Hann hvetur stuðningsmenn til að fjölmenna á næsta leik og styðja liðið. „Ég vona að stuðningsmenn Keflavíkur fjölmenni á HS Orkuvöllinn gegn Breiðablik í næsta leik og taki þessa stemningu með sér og taki þannig þátt í þessu ævintýri með okkur,“ skrifar Sigurður í færslunni við myndbandið sem sjá má hér.