Noregur varð sér til skammar á EM kvenna í gærkvöldi er liðið spilaði við gestgjafa mótsins frá Englandi. England gjörsamlega valtaði yfir þær norsku í kvöld og var staðan eftir fyrri hálfleikinn 6-0.
Beth Mead átti stórleik fyrir Englendinga og skoraði þrennu, en þetta var annar sigur liðsins í A-riðli. England bætti við tveimur mörkum til viðbótar í seinni hálfleik og vann ótrúlegan 8-0 sigur.
Þetta er stærsti sigur á EM frá upphafi og þýðir einnig að Norður-Írland er úr leik í mótinu eftir tvö töp.
Norskir fjölmiðlar og sparkspekingar taka lið sitt af lífi eftir leik. Þar á meðal er John Arne Riise, fyrrum leikmaður Liverpool og norska landsliðsins.
„Þetta er skammarlegt, þetta er aumkunarvert. Ég er í áfalli yfir því hvað þetta er lélegt,“ segir Riise við BBC.
Lars Tjærnas, sparkspekingur á Viaplay, tók í svipaðan streng. „Þetta er einhver skammarlegast frammistaða sem ég hef séð frá norsku landsliði. Það skorti allt fram á við og líka til baka. Í ofanálag litu margir leikmenn út fyrir að vera hræddir. Þetta gæti ekki orðið verra,“ skrifar Tjærnas.
Þá segir í fyrirsögn miðilsins Nettavisen að það sé „vont að vera Norðmaður í dag.“