Milos Milojevic, þjálfari Malmö segist ekki geta tjáð sig um orðróm þess efnis að Daniel Tristan Guðjohnsen sé á leið til félagsins. Það var vefsíðan Fotbolti.net sem greindi frá því í gær að Daniel væri á leiðinni til Malmö.
,,Ég get ekki tjáð mig um leikmenn annarra félaga. Við værum hins vegar ánægðir með að gæta bætt einum Íslendingi við leikmannahóp okkar,“ svaraði Milos.
Daníel Tristan er sonur Eiðs Smára Guðjohnsen, eins besta knattspyrnumanns Íslands frá upphafi.
,,Það væri ekki verra ef það væri leikmaður með góð gen, meðlimur úr Guðjohnsen fjölskyldunni. Ég væri ánægður með það. En þessi spurning á heima hjá yfirmanni knattspyrnumála,“ sagði Milos Milojevic, þjálfari Malmö á blaðamannafundi í Víkinni í kvöld.
Daníel Tristan er fæddur árið 2006 or er yngsti sonur Eiðs Smára og Ragnheiðar Sveinsdóttur. Hann er nú á mála hjá Real Madrid en spilaði áður með unglingaliði Barcelona.