Robert Lewandowski, framherji Bayern Munchen, hefur verið orðaður frá félaginu í allt sumar.
Sjálfur vill leikmaðurinn komast til Barcelona. Það er þó ekki víst að félagið hafi efni á honum.
Lewandowski er kominn í stríð við Bayern og þarf helst að komast í burtu í sumar, en hann á eitt ár eftir af samningi sínum við þýska stórveldið.
Komist Lewandowski ekki til Barcelona er hann einnig til í að fara til Chelsea. Enska félagið hefur áhuga á honum. Það lánaði Romelu Lukaku til Inter á dögunum. Hann hafði valdið vonbrigðum á Brúnni.
Þá hefur Paris Saint-Germain einnig áhuga á Lewandowski. Pólverjinn vill þó frekar komast til Chelsea heldur en að halda til Parísar. Íþróttablaðamaðurinn Christian Falk, sem fjallar gjarnan um málefni Bayern Munchen, segir frá þessu.
Lewandowski hefur verið hjá Bayern í átta ár og raðað inn mörkum fyrir félagið. Það er hins vegar útlit fyrir að viðskilnaður hans við Bayern verði ljótur.