Erik ten Hag, stjóri Manchester United, segir að Cristiano Ronaldo sé ekki til sölu, þrátt fyrir orðróma síðustu daga.
Ronaldo er sagður óánægður hjá Man Utd og vilja burt. Portúgalinn vill spila í Meistaradeild Evrópu og hefur til að mynda verið orðaður við Chelsea, Bayern Munchen og Napoli.
Ronaldo er ekki með Man Utd í æfingaferð sem liðið er nú í. Að sögn ten Hag er það þó ekki vegna þess að hann er á förum.
„Cristiano Ronaldo er ekki til sölu. Hann er í okkar áætlunum. Hann er ekki með okkur núna af persónulegum ástæðum. Við skipuleggjum næsta tímabil með hann í huga, það er staðan,“ segir ten Hag.
„Hvernig gerum við Cristiano glaðan? Ég veit það ekki en ég hlakka til að vinna með honum,“ bætir Hollendingurinn við.
Ronaldo átti sjálfur fínasta tímabil með Man Utd eftir endurkomuna til félagsins í fyrra. Liðið var hins vegar lélegt og náði, sem fyrr segir, ekki Meistaradeildarsæti.