Simon Jordan, einn af sérfræðingum talkSPORT segist sjá í gegnum það sem hann kallar leikþátt hjá Erik ten Hag, knattspyrnustjóra Manchester United í morgun þegar að hann sagði Cristiano Ronaldo, leikmann Manchester United ekki til sölu.
Ronaldo er sagður óánægður hjá Man Utd og vilja burt. Portúgalinn vill spila í Meistaradeild Evrópu og hefur til að mynda verið orðaður við Chelsea, Bayern Munchen og Napoli en Ten Hag segir hann vera í áætlunum sínum.
Ten Hag þvertekur fyrir orðrómana – „Hvernig gerum við Cristiano glaðan?“
,,Cristiano Ronaldo er ekki til sölu. Hann er í okkar áætlunum. Hann er ekki með okkur núna af persónulegum ástæðum. Við skipuleggjum næsta tímabil með hann í huga, það er staðan,“ sagði Ten Hag á blaðamannafundi og bætti við að hann hlakkaði til að vinna með Ronaldo sem er ekki með United í æfingarferð sem teygir sig til Tælands og Ástralíu.
Á talkSPORT í morgun sagðist Simon Jordan telja að Ten Hag vilji Ronaldo burt.
,,Ég get ímyndað mér að Ten Hag geti ekki beðið eftir því að henda Ronaldo út. Hann spilar þetta bara svona til þess að geta verið í góðri stöðu þegar Ronaldo fer á endanum. Þessir menn segja ákveðna hluti til þess að koma á ákveðnu sjónarhorni sem hentar þeim.
Ronaldo er ekki með Manchester United í æfingaferðinni vegna fjölskyldulegra ástæðna en Simon Jordan telur það þvætting. ,,Hann er ekki með vegna þess að hann vill ekki vera hjá Manchester United lengur.“