Það virðist æ líklegra að Raphinha, kantmaður Leeds, endi hjá Barcelona í sumar.
Nokkrir erlendir miðlar segja frá því að Barcelona og Leeds hafi náð saman um kaup fyrrnefnda félagsins á leikmanninum.
Bæði Goal og The Athletic segja til að mynda frá því að Barcelona borgi Leeds 60 milljónir punda fyrir þjónustu leikmannsins.
Raphinha hefur verið einn allra besti leikmaður Leeds frá því hann kom til félagsins frá Rennes sumarið 2020.
Brasilíumaðurinn hefur verið mikið í fréttum í sumar. Fyrir nokkrum vikum var Arsenal talinn hans líklegasti áfangastaður. Skömmu síðar var sagt frá því að hann væri svo gott sem genginn til liðs við Chelsea.
Barcelona hefur hins vegar alltaf verið fyrsti kostur leikmannsins, sem virðist nú ætla að fá ósk sína uppfyllta.