Alessandro Del Piero, fyrrum leikmaður Juventus, er mjög hissa yfir því að Paulo Dybala sé enn án félags.
Dybala hefur yfirgefið lið Juventus eftir að hafa orðið samningslaus en er enn ekki kominn með nýtt heimili.
Það var ávallt vilji Dybala að spila áfram á Ítalíu en hann er nú opinn fyrir því að fara til annað hvort Spánar eða Englands.
Del Piero skilur ekki af hverju eitthvað lið sé ekki búið að semja við argentínska landsliðsmanninn sem býr yfir miklum hæfileikum.
,,Það verður skrítið að sjá hann í annarri treyju. Þetta er leikmaður sem er með gæði sem sameina miðjumann og sóknarmann fullkomlega,“ sagði Del Piero.
,,Hann er límið og það hentar að hafa þannig mann í sókninni. Ég er mjög hissa að hann sé ekki búinn að finna sér lið ennþá.“