Kona á sextugsaldri lést eftir að hún varð fyrir strætisvagni við svokallað EM-torg sem búið er að koma upp við Piccadilly Gardens í Manchester í tilefni Evrópumótsins í knattspyrnu sem fer nú fram í Englandi. Fjöldi Íslendinga var á svæðinu í gær í tilefni þess að Ísland lék opnunarleik sinn á mótinu við Belga.
Það er Manchester Evening News sem greinir frá framvindu mála í tengslum við slysið en auk konunnar sem lést liggur einn alvarlega slasaður á sjúkrahúsi og annar með minniháttar meiðsli.
Tveggja hæða strætisvagn lenti á strætóskýli við EM-torgið í gær. Einstaklingar sem urðu vitni að atvikinu hafa lýst því hvernig strætisvagninum hafi verið ekið upp á gangstétt þar sem hann hafi á endanum lent á strætisskýlinu.
Lögreglan í Greater Manchester biðlar til fólks sem kann að búa yfir myndefni að aðdraganda slyssins um að gefa sig fram þar sem það gæti hjálpað til við rannsókn málsins.