Sandra Sigurðardóttir, markmaður Íslands, lék með liðinu í kvöld sem spilaði við Belgíu í lokakeppni EM.
Ísland gerði 1-1 jafntefli við Belga í opnunarleiknum sem er smá svekkjandi en liðið hafði möguleika á öllum þremur stigum.
Ísland er í erfiðum riðli með Belgum, Frökkum og Ítölum og hefði verið kjörið að fá þrjú stig í kvöld.
Sandra ræddi við fjölmiðla eftir leik og viðurkennir að það sé svekkjandi að fá ekki öll stigin þrjú.
„Við erum svekktar. Við ætluðum að fá þrjú stig en virðum þetta stig,“ segir Sandra.
Hún var spurð út í vítið sem Belgar fengu. „Í fljótu bragði fannst mér hún sækja þetta svolítið,“ segir hún en getur ekki dæmt um hvort dómurinn hafi verið réttur eða ekki.
Sandra er nokkuð sátt með eigin frammistöðu.„Ég held ég komi ágætlega vel frá þessu. Ég hefði auðvitað viljað verja þetta víti.“
Markvörðurinn hefur farið á öll Evrópumót Íslands síðan 2009 en spilaði fyrst í dag. „Ég er ótrúlega glöð og stolt, loksins.“