Wayne Rooney gæti verið að snúa aftur í þjálfun stuttu eftir að hafa yfirgefið Derby County á Englandi.
Þetta segir Daily Mail en Rooney ákvað að segja starfi sínu lausu í síðasta mánuði eftir erfiðleika innan enska félagsins sem er nú loksins búið að selja.
Rooney náði fínum árangri sem stjóri Derby en tókst ekki að halda liðinu upp í næst efstu deild þar sem stig voru dregin af félaginu vegna fjárhagsvandræða.
Samkvæmt Mail gæti Rooney verið á leið til Bandaríkjanna að taka við DC United þar sem hann var áður leikmaður.
Hernan Losada hefur verið rekinn sem stjóri DC United og leitar stjórn félagsins því að nýjum stjóra.
Rooney eyddi tveimur árum hjá DC United og skoraði 25 mörk í 52 leikjum fyrir félagið.