Síðasti séns Milos Milojevic verður þann 12. júní næstkomandi er Malmö spilar við Víking Reykjavík í undankeppni Meistaradeildarinnar.
Þetta segir Kristján Óli Sigurðsson, einn af sérfræðingum Þungavigtarinnar, en hlaðvarpsþætturinn vinsæli birti nýtt innslag á föstudag.
Milos er fyrrum þjálfari Víkings og Breiðabliks en er talinn vera undir mikilli pressu í Svíþjóð eftir erfiða byrjun með stórliði Malmö.
Kristján telur að ef Malmö tekst ekki að slá út Víkinga að þá verði rifið í gikkinn og að Milos verði rekinn.
Einar Guðnason var gestur þáttarins en hann er Víkingur og starfar í Svíþjóð í dag.
,,Það er bara þannig að þegar Milos mætir í Víkina, hann veit það bara að ef hann tapar þessum leik og dettur út þá verður rifið í gikkinn,“ sagði Kristján.
,,Þá fer hann án atvinnu frá Íslandi. Það er bara hashtag Milos out.“
Einar bætir við að það sé ósk Íslendinga að Milos haldi starfinu en samfélagsmiðlarnir tala sínu máli.
,,Við getum bara skoðað samfélagsmiðlana. Því miður því hann er hálfur Íslendingur þannig séð og við viljum hafa hann í svona stóru giggi,“ sagði Einar.
,,Það væri samt svolítil kaldhæðni ef þessi leikhúshringur sem byrjaði á að hann lét reka sig í Víkinni myndi svo enda í Víkinni.“