Guðmundur Magnússon, leikmaður Fram, er á milli tannana á nokkrum eftir Twitter færslu sem hann lét falla í kvöld.
Guðmundur tjáði sig þar um stöðu mála hjá ÍBV sem er í vandræðum í Bestu deildinni undir stjórn Hermanns Hreiðarssonar.
Starf Hermanns gæti verið í hættu en ÍBV er á botninum með fimm stig eftir 12 leiki. Liðið tapaði 4-3 gegn KA í dag.
Guðmundur þekkir það að spila með ÍBV en hann lék með liðinu í efstu deild 2019 og skoraði þá eitt mark í tíu leikjum.
,,Ef þjálfari ÍBV kæmi erlendis frá, segjum t.d Portúgal væri búið að reka hann,“ skrifar Guðmundur á Twitter í kvöld.
Framherjinn er þar augljóslega að benda á að Pedro Hipolito hafi verið rekinn frá ÍBV árið 2019 eftir aðeins sex mánuði í starfi.
Pedro og Guðmundur störfuðu áður saman hjá Fram og fékk Portúgalinn hann í raðir ÍBV í kjölfarið.
Ef þjálfari ÍBV kæmi erlendis frá, segjum t.d Portúgal væri búið að reka hann 🤷🏼♂️
— Guðmundur Magnússon (@GummiMagnusson) July 9, 2022