„Það hefur alltaf verið draumur að komast á stórmót og það er ekkert smá gaman að vera mætt loksins,“ segir Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, landsliðskona. Ísland hefur leik á Evrópumótinu á morgun er liðið mætir Belgum í Manchester.
„Þetta er ekkert smá flottur hópur, gríðarlega flott liðsheild og við erum bara vel stemmdar,“ segir Karólína.
EM á Englandi er umfangsmikið. Karólína er þó ekkert að fara fram úr sér. „Ég held að maður sé ekki alveg búinn að átta sig á því hvað þetta er stórt, það kannski kemur á leikstað á sunnudag.“
Karólína er leikmaður Bayern Munchen í Þýskalandi og því vön stóra sviðinu. „Maður er heppinn að vera búinn að spila nokkra stóra leiki með félagsliði.“
Það er mikil eftirvænting í landanum fyrir mótið. „Ísland er alltaf með miklar væntingar, sem er bara gaman,“ segir Karólína Lea, leikmaður Bayern Munchen.
Viðtalið í heild má horfa á hér að neðan.