Kristinn Óli Haraldsson, tónlistarmaður og leikari, skipti á dögunum um félag í knattspyrnu.
Kristinn Óli, sem einnig er þekktur sem Króli, fór frá Knattspyrnufélaginu Ásvellir og yfir í Skautafélag Reykjavíkur en bæði félög leika í B-riðli í 4. deild karla.
Þrátt fyrir að Kristinn Óli sé hvað þekktastur fyrir verkefni sín í tónlist og leiklist þá hefur hann nokkra reynslu af 4. deildinni þar sem hann hefur leikið í henni síðan árið 2019. Hann hefur alls spilað 12 leiki í deildinni en á þó ennþá eftir að opna markareikninginn sinn.
Síðastliðinn sunnudag lék Kristinn Óli sinn fyrsta leik fyrir SR er liðið sigraði Afríku örugglega með níu mörkum gegn einu. Kristinn Óli kom inn á fyrir reynsluboltann Jón Konráð Guðbergsson þegar rúmur klukkutími var liðinn af leiknum.