Markvörðurinn Frederik Schram hefur átt í viðræðum við Val um samning en óvíst er hvort hann yfirgefi danska félagið Lyngby. Michael Mio Nielsen umboðsmaður Schram staðfestir þetta við 433.is.
433.is birti mynd af Schram á Hlíðarenda í síðustu viku þar sem hann sást ræða við Börk Edvardsson formann knattspyrnudeildar Vals.
Schram er 27 ára gamall og er á mála hjá Lyngby í Danmörku. Hann er varamarkvörður þar undir stjórn Freys Alexanderssonar. Liðið er komið upp í úrvalsdeildina undir stjórn Freys.
Markvörðurinn er með tvöfalt ríkisfang, íslenskt og danskt. Hann fór með íslenska landsliðinu á Heimsmeistaramótið í Rússlandi árið 2018.
„Hann var á Íslandi vegna fjölskyldu sinnar en hann hitti forráðamenn Vals. Ég veit ekki hvað mun gerast en þetta gæti verið kostur fyrir hann. Hann var að klára æfingu hjá Lyngby og það var markvörður að meiðast hjá þeim. Við sjáum hvað gerist,“ sagði Mio Nielsen umboðsmaður Schram við 433.is.
Mio Nielsen segir að viðræður um samning hafi átt sér stað en vegna meiðsla hjá markverði Lyngby gæti staðan breyst.
„Hann talaði við Val, ég veit ekki hvað gerist. Við höfum rætt um samning við þá en það er ekkert klár. Við höfum rætt þetta en meiðslin hjá markverði Lyngby gætu breytt stöðunni. Það eru iðulega þrír markverðir á æfingu en nú er einn meiddur.“
Fyrir hjá Val er markvörðurinn Guy Smit. Hann hefur ekki staðið undir væntingum á Hlíðarenda eftir komu sína frá Leikni Reykjavík fyrir þetta tímabil.