„Við erum allar búnar að vera að bíða eftir þessu og nú er bara komið að þessu,“ sagði Alexandra Jóhannsdóttir, landsliðskona, við 433.is fyrir landsliðsæfingu Íslands á Laugardalsvelli í dag.
Ísland hefur leik á Evrópumótinu á Englandi gegn Belgum þann 10. júlí. Ísland er einnig með Frökkum og Ítölum í riðli.
„Mér fannst þetta flottur riðill sem við fengum. Við eigum að geta unnið þessi lið á okkar degi. Það eru engin létt lið á þessu móti. Ég er bara sátt með þetta. Belgía og Ítalía, myndi ég segja, eru lið sem við getum unnið. Og Frakkar, á okkar besta degi held ég að við tökum þær,“ sagði Alexandra um riðilinn.
Alexandra gekk aftur í raðir Breiðabliks á láni í vor til þess að fá aukin spiltíma fyrir mótið. Hún er á mála hjá Frankfurt í Þýskalandi. „Ég er ótrúlega sátt með að fá spiltímann, fá sjálfstraust, komast í leikform og það hefur alveg borgað sig,“ sagði Alexandra, sem hefur skorað þrjú mörk í Bestu deild kvenna í ár og leikið vel. Hún fer aftur til Frankfurt að Evrópumóti loknu.
Evrópumótið átti að fara fram í fyrra en var frestað um ár vegna kórónuveirufaraldursins. Ísland er með marga unga og efnilega leikmenn sem hafa bætt sig á þessu ári. Alexandra segir það hafa komið sér ágætlega fyrir Ísland að mótinu hafi verið frestað. „Við erum margar sem fórum út í atvinnumennsku og búnar að vaxa og verða betri. Ég held að það sé bara fínt.“
Aldursbilið í íslenska hópnum er breitt. Alexandra segir að innan vallar geti reynslumeiri leikmenn hjálpað þeim yngri mikið. „En utan vallar haga þær sér eins og við,“ bætti Alexandra við og hló.