Jose Maria Cruz de Andres, yfirmaður knattspyrnumála Sevilla, hefur staðfest það að Jules Kounde vilji yfirgefa félagið í sumar.
Kounde vill spila í stærra félagi en Sevilla en hann vill geta barist um bæði deildarmeistaratitil sem og spila í Meistaradeildinni.
Kounde er á óskalista margra liða í Evrópu en miðvörðurinn hefur sérstaklega verið orðaður við Chelsea.
Nú er það staðfest að Frakkinn vilji spila annars staðar næsta vetur og verður væntanlega hart barist um hans þjónustu í sumarglugganum.
,,Ég er viss um að leikmaðurinn virði Sevilla. Hann er ánægður með okkur og þegar kemur að Kounde snýst þetta ekki um peningana. Hann vill spila í liði sem getur barist um meira en Sevilla,“ sagði De Andres.
,,Ég er viss um að þetta sé leikmaður sem er áhugaverður fyrir Chelsea, Barcelona, Bayern Munchen og þessi lið. Hann vill spila í keppnishæfara liði.“