Paul Merson, fyrrum landsliðsmaður Englands, skilur ekki af hverju Harry Kane var í leikmannahópi Englands í leikjunum í Þjóðadeildinni sem fóru nýlega fram.
Englandi hefur gengið skelfilega í Þjóðadeildini hingað til en Kane spilaði 90 mínútur í þremur af fjórum leikjum í verkefninu sem var að ljúka.
Það er ákvörðun sem Merson skilur ekki en Kane spilaði mjög mikið með Tottenham í vetur og átti að vera í sumarfríi að hans mati.
England spilaði fjóra leiki í Þjóðadeildinni á aðeins 11 dögum en liðinu gekk illa og tapaði til að mynda 4-0 heima gegn Ungverjalandi.
,,Ég sé ekki hvað er hægt að rökræða hérna. Hann kemst alltaf á HM og ég trúi ekki að hann hafi spilað í þessum leikjum í Þjóðadeildinni,“ sagði Merson.
,,Hann átti að vera í sumarfríi, nú fær hann aðeins þrjár vikur. Við þurfum heilbrigðan og ferskan Harry Kane á HM.“
,,Hann þarf að fá leikmenn í kringum sig sem taka hlaup, það er enginn tilgangur í að setja hann aftar á völlinn ef enginn er að taka hlaupin.“