Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Íslands- og bikarmeistara Víkings Reykjavíkur segir afar mikilvægt að íslensku félagsliðin standi sig vel í Evrópukeppnum í ár.
Ísland missti eitt sæti í Evrópu frá og með síðustu leiktíð. Þá þurfa Íslandsmeistarar Víkings að fara í forkeppni um laust sæti í undankeppni Meistaradeildar Evrópu, í stað þess að komast beint í fyrstu umferð undankeppninnar eins og íslensk lið hafa gert undanfarin ár.
Þetta er vegna slæms gengis íslenskra liða í Evrópu undanfarin ár.
Til að endurheimta Evrópusætið og sæti í undankeppninni er mikilvægt að íslensk félagslið standi sig vel í Evrópu í ár.
„Blikarnir gerðu þetta hrikalega vel í fyrra og þeir þurfa að halda því áfram í ár,“ sagði Arnar í samtali við Fréttablaðið. Blikar komust í þriðju umferð forkeppni Sambandsdeildarinnar í fyrra.
„KR og við líka, við þurfum að gera okkar allra besta til að endurheimta þetta sæti því það er svo ótrúlega mikilvægt fyrir íslenskan fótbolta.“