Virgil van Dijk er af mörgum talinn besti varnarmaður heims í dag en hann er á mála hjá Liverpool á Englandi.
Van Dijk gekk í raðir Southampton frá Celtic árið 2015 og var keyptur til Liverpool þremur árum seinna og hefur spilað glimrandi vel.
Neil Warnock, fyrrum stjóri Crystal Palace, gat fengið Van Dijk á sínum tíma áður en hann skrifaði undir hjá Southampton eftir flotta frammistöðu með Celtic.
Það var yfirnjósnari Palace á þeim tíma sem tók ákvörðun um það að Van Dijk væri of hægur – eitthvað sem kann að hljóma undarlega í dag.
Warnock sér auðvitað eftir því í dag að hafa ekki fengið Van Dijk sem er á lista margra yfir besta varnarmann heims.
,,Sá sem við misstum af var Virgil van Dijk. Mér var boðið að fá hann fyrir fimm milljónir hjá Crystal Palace,“ sagði Warnock.
,,Yfirnjósnari minn sagði að hann væri of hægur og hann endaði hjá Southampton í staðinn. Það er leiðinlegt því ef það vantaði upp á hraðann þá bætti hann upp fyrir það með með leikskilning.“