Alfreð Finnbogason er á förum frá Augsburg þegar samningur hans rennur út. Alfreð hefur verið á mála hjá félaginu í sex ár. Hinn 33 ára gamli Alfreð hefur misst mikið úr síðustu tímabil og lék til að mynda aðeins tíu leiki í þýsku Bundesligunni á nýafstöðnu tímabili.
„Þetta var gríðarlega mikið svekkelsi, sérstaklega eftir síðasta tímabil sem var líklega erfiðasta tímabil sem ég hafi farið í gegnum. Ég held að vandamálið síðustu tvö árin sé frekar augljóst. Það eru meiðsli og ryþmi. Það er ekkert sem kemur í staðinn fyrir ryþma. Ef þú ert ekki að æfa og spila viku eftir viku þá er ekki fræðilegur að þú getir verið að sýna þínar bestu hliðar,“ sagði Alfreð í þættinum Chess After Dark, spurður út í leiktíðina sem var að ljúka.
Alfreð segir síðustu tvö tímabil hafa verið mjög erfið. „Bæði tímabilin voru nokkuð lík, næ mjög góðu undirbúningstímabili í ár (fyrir síðustu leiktíð), spilaði hvern einasta leik. Og bara til að súmmera upp þetta tímabil er ég straujaður í fyrsta bikarleiknum á einhverju túni á móti einhverju fimmtu deildarliði í Norður-Þýskalandi. Þá var ég frá í þrjár, fjórar vikur, kem svo til baka og fer beint í önnur meiðsli. Þetta hefur verið svolítið verið sagan.“
Alfreð kom aftur inn í liðið fyrir áramót en meiddist svo aftur. „Svo næ ég ákveðnum highlights, kem inn á í bikarleik og gekk vel, byrjaði svo á móti Stuttgart í leik sem við unnum 4-1. Ég var búinn að bíða eftir svona leik ógeðslega lengi, byrja inn á, skora og vera mikilvægur aftur. En svo viku seinna fór ég beint í önnur meiðsli og missti af restinni af fyrri umferðinni. Í seinni umferðinni var ég mest heill, en það voru bara aðrir leikmenn búnir að standa sig vel og voru ofar í goggunarröðinni.“
„Heilt yfir er þetta mjög svekkjandi tímabil. Ég hafði miklu hærri markmið.“